Ritstjórn og stefna

Ritstjórn

Sigurður Rúnarsson
  • Sigurður Rúnarsson er ritstjóri Nýja Íslands.

 

Hann skrifar fréttir, frásagnir, fróðleik og viðtöl.
Netfang: ritstjorn@nyjaisland.no


Um Nýja Ísland

Nýja Ísland er íslenskur vefmiðill rekinn í Noregi. Vefmiðillinn er gefinn út daglega sem fréttatímarit á vefnum. Runarsson Konsultasjon á og rekur Nýja Ísland og ritstjóri er Sigurður Rúnarsson.

Nýja Ísland var fyrsti íslenski óháði fjölmiðillinn í Noregi sem gefinn er út á íslensku.

Nýja Ísland kom fyrst út 24. október 2017 á vefslóðinni www.nyjaisland.no.


Stefna

Ritstjórnarstefna Nýja Íslands byggist á sjálfstæðum fréttaflutningi, gagnrýni, fróðleik og áhugaverðum málum tengdum Íslendingum, íslenskri menningu, sögu, íslensku og öðrum málefnum tengdum Noregi og Íslandi.


Nafn fjölmiðilsins

Nafn fjölmiðilsins, Nýja Ísland, er dregið af líkindum með þeim fólksflutningum sem áttu sér stað meðal Íslendinga á seinnihluta 19. aldarinnar og fram á fyrrihluta þeirrar 20. og þeim fólksflutningum sem áttu sér stað frá Íslandi til Noregs frá hrun árinu 2008.

Á tímabilinu 1846 – 1914 fluttu um 52 milljónir Evrópubúa til Ameríku. Um 5% af þeim voru Norðurlandabúar og þar af voru um 15 þúsund Íslendingar eða fimmtungur þjóðarinnar á þeim tíma.

Kanadastjórn úthlutaði íslendingum nýtt og óbyggt landsvæði sem var nefnt Nýja Ísland og skiftist í fjögur byggðarlög er nefndust Víðirnesbyggð, Árnesbyggð, Fljótsbyggð og Mikleyjarbyggð

Ísafoldarbyggð tilheyrði strangt til tekið ekki nýlendunni en þar var samt sem áður allnokkur byggð; Árborg tilheyrði ekki upphaflega landnáminu en er nú eitt helsta þéttbýlið eftir að lestarsamgöngur hófust; Íslendingafljót og Gimli urðu fljótlega tveir helstu pólar byggðarinnar og Gimli höfuðstaðurinn. *

Framan af stóð til að þeir Íslendingar sem fluttu til svæðisins, sem Kanadísk stjórnvöld höfðu úthlutað þeim, myndu stofna nýtt sjálfstætt lýðveldi og gefa því nafnið Nýja Ísland á svipaðan hátt og var að gerast meðal aðfluttra Evrópubúa um alla Norður Ameríku eins og sjá má á þeim gríðarmörgu nöfnum svæða og borga sem endurnýta nafn upprunalands eða borgar aðfluttra en bæta Nýja (en. New) fyrir framan s.s. New England, New YorkNew Brunswick, New Hampshire, Nova Scotia (Nýja Skotland) og New Jersey.

Hér má einnig geta þess að í sumum tilvikum voru nöfn tekin án forskeytisin Nýja og notað með beinum hætti ss, í Oslo (borg), Marshall sýslu, Minnesota, BNA

Þess má til gamans geta að langalangafi ritstjóra fjölmiðilsins Nýja Íslands flutti frá Íslandi 1901 og settist að í Swan River, Manitoba. En atvik urðu þess valdandi að hann skildi eftir tvö af börnum sínum á Íslandi sem áttu að koma síðar til Kanada. Af því varð aldrei og uxu þau og döfnuðu á Íslandi og er ritsjórinn því afkomandi einnar dóttur hans. 

Það má því segja að aðstæður á Íslandi á seinni hluta 19. aldar og aðstæður árin eftir hrun 2008 hafi endurspeglast í einni og sömu fjölskyldu við það að ritsjóri Nýja Íslands flutti búsetu til Noregs árið 2012 til að hefja nýtt líf í nýju landi þegar kreppti að í heimalandinu.

Þannig er hugmyndin um nafn fjölmiðilsins Nýja Ísland tilkomin hjá eiganda og ritstjóra fjölmiðilsins. 

 

* Byggt á Wikipedia