Hjónin Erla Kristín Hansen og Halldór Sveinsson opnuðu síðastliðinn laugardag, ísbúðina Candis Isbar í miðbæ Skien. Þau eru bæði úr Hveragerði og er Erla Kristín hársnyrtir en Halldór er smiður. Þau fluttu til Skien frá Íslandi síðastliðið haust og má því segja að þau hafi heldur betur hent sér út í djúpu laugina með því að stofna eigin rekstur eftir tæpt ár í Noregi. Erla Kristín bjó sem barn í Noregi og talaði því málið en það kom líka fljótt hjá Halldóri. 

Þau segja að þau hafi frá upphafi langað til að standa saman í einhverskonar rekstri hér úti og þar sem þeim fannst vera vöntun á flottum ísbúðum eins og þær þekkist á Íslandi hafi það orðið fyrir valinu. Ferlið var langt og strangt en erfiðast fannst þeim að komast í rétt sambönd og finna út úr allskonar stórum og litlum hlutum. Þau hafa þó fengið heilmikla hjálp við það frá heimamönnum sérstaklega eiganda húsnæðisins. Þetta hafi kannski mest verið erfitt því þau eru svo nýflutt til landsins en þetta gekk þó allt vel að lokum enda séu þau dugleg við að hringja og hafa samband útum allt og tala við marga aðila, bæði hér og heima á Íslandi. Halldór vann í matvælaiðnaði á árum áður svo hann býr að góðri reynslu á því sviði og það hefur hjálpað. 

“Þetta er því rosalega mikil vinna en borgar sig algjörlega og er mjög skemmtileg reynsla að byrja nýjan rekstur í alveg nýju umhverfi” segja þau. Þau útbúa allan ísinn sjálf á staðum eftir eigin uppskrift og nú er bara að vona að norðmenn líki ísinn.  

Eins og áður sagði opnuðu þau Candis Isbar síðastliðinn laugardag og hafa viðtökurnar verið mjög góðar og margir lýst yfir hrifningu yfir ísnum. 

Kúluísinn

“Þá er einmitt markmiðinu náð. Okkur langaði til að hafa mikið úrval af ís sem fólk kynni að meta og væri svolítið öðruvísi en það sem tíðkast hefur” segir Erla Kristín. 

Nú til að byrja með er öll undirstaða í ísnum þeirra mjólk og rjómi. Allur ísinn er glútenfrír og er það á áætlun hjá þeim að koma með fleiri möguleika fyrir þá sem eru t.d. vegan eða með laktósaóþol þannig að þegar fram í sækir geti allir fengið eitthvað við sitt hæfi. 

Þau bjóða upp á eigin uppskrift af vélís (softis), margar tegundir af kúluís og mikið úrval af ferskum berjum, kurli og dýfum. Þau bjóða einnig upp á bragðarefi eins og við íslendingar þekkjum, undir nafninu Candis og hefur það notið mikilla vinsælda núna fyrstu dagana. 

Candis Isbar er staðsett á Telemarksgata 12 í Skien og er opin alla daga vikunar, mánudaga til laugardaga frá 10-21 og sunnudaga frá 12-18. Fjórar frábærar stelpur eru í vaktavinnu hjá þeim Erlu Kristínu og Halldóri en yfirleitt er annað þeirra líka við ef ekki bæði og taka þau vel á móti gestum.

Starfsfólkið og börn eigenda

Að lokum vilja þau Erla Kristín og Halldór þakka kærlega fyrir frábærar viðtökur og hvetja þau alla til að gera sér ferð og kynna sér úrvalið. 

“Vonumst til að sjá ykkur öll” segja þau skælbrosandi að lokum. 

Við hjá Vefmiðlinum Nýja Ísland óskum þeim hjónum hjartanlega til hamingju með Candis Isbar og kveðjum í bili, pakksödd eftir dásamlegan Candis með ferskum norskum jarðaberjum og oreokexi.

Candis (bragðarefur) með jarðaberjum og Oreokexi

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.