Nýja Ísland sá í fréttunum í síðustu viku,  viðtal við íslendinginn Margreti Annie Guðbergsdóttur þar sem hún segir frá læknamistökum sem hún varð fyrir á sjúkrahúsinu í Kristiansand.

Við ákváðum að taka smá viðtal við Margréti og heyra þessa ótrúlegu sögu hennar.

Margrét Annie flutti ásamt eiginmanni og tveimur sonum til Noregs árið 2011 og hafa þau búið í Suður Noregi mest allan tímann bæði í Mandal og nú í Øyslebø í Marnardal þar sem þau hafa búið sér fallegt heimili.
Í dag býr einnig dóttir þeirra ásamt eiginmanni og 3 dætrum í nágrenninu við þau, en 3 börn og 5 barnabörn eru heima á Íslandi.

Margrét sem hefur starfað sem sjúkraliði og stuðningsfulltrúi lenti í því í fyrra að detta á baðherbergisgólfinu heima hjá sér og úlnliðsbrjóta sig sem oftast er nú ekkert stór mál en fyrir Margréti hefur þetta verið ótrúlegt ferðalag.

Hún var send í aðgerð á sjúkrahúsið í Kristiansand viku eftir að hún datt en hafði þurft að bíða lengi eftir að skurðlæknir væri laus.  Aðgerðin er síðan framkvæmd á föstudagskvöldi og einungis af einum lækni sem hafði ekki rétt­indi sem heim­iluðu hon­um að fram­kvæma bæklun­ar­sk­urðaðgerðir í Nor­egi án eft­ir­lits.

„Hann sagði mér að þetta væri mjög al­var­legt brot og þyrfti að skrúfa úlnliðinn sam­an auk þess sem ég þyrfti að fá tvær plöt­ur í hand­legg­inn,“ seg­ir Mar­grét.

Núna hálfu ári seinna getur hún ekki hreyft fingurna og hendin er stíf frá öxl og niður.  Verkirnir eru ógurlegir en verst er þó að geta ekkert gert. 

“Ég fór þó í myndatöku um daginn og þær myndir verða sendar á sjúkrahús í Bergen þar sem sérfræðingur þar mun skoða þær og meta hvort hann telji einhverja möguleika á bata. 

Ég er búin að vera 3svar í viku í 5 mánuði hjá sjúkraþjálfa og hef þrátt fyrir það, nánast enga hreyfigetu í fingrunum eða hendinni.”  

Margrét er glaðvær kona sem hefur átt auðvelt með að horfa bjartsýnis augum á lífið en því miður segist hún vera alveg hætt að vera bjartsýn en ætla að vera raunhæf.

Kona sem elskaði að prjóna og elda góðan mat, halda veislur, ferðast og keyra bíl getur ekkert af þessu lengur.  Lífið er engan veginn það sama.

En hvað segir Margrét sjálf um þetta allt saman:

“Þetta er bara búið að vera dáldið súrealískur tími núna.  Málið er að ég fer að lesa eitthvað um þennan lækni sem hafði starfað í Flekkefjord og gert mörg mistök sem vitað er um en ekki hefur verið staðfest af sjúkrahúsinu þar og ég fæ einhverja skrítna tilfinningu um að þetta sé sami læknir sem framkvæmdi aðgerðina á mér en finn ekkert um hann á netinu svo ég ákveð að hafa samband við mann sem hefur komið fram í fjölmiðlum sem fórnarlamb þessa læknis og þar fæ ég staðfestingu að þetta sé rétt tilfinning hjá mér.

Mér er síðan ráðlagt að hafa samband við NRK og segja frá minni sögu en ég ætlaði mér helst ekkert að gera það ég var skíthrædd að fara í sjónvarpið sérstaklega þar sem ég er ekki norsk þó ég tali norsku, þá fannst mér að það yrði hræðilegt ef ég talaði svo óskýrt og yrði kannski textuð en ég læt svo undan þar sem ég fer að hugsa um þá sem annars gætu lent í honum seinna meir.  Ég vil ekki að þessi læknir fái að starfa lengur eftir allt sem á undan er gengið.


Þeir hjá NRK taka mjög vel á móti mér og þegar ég er búin að segja þeim mína sögu, segjast þau ætla að hafa samband við sjúkrahúsið til að heyra hvað þau segja en segjast ætla að senda blaðamann og ljósmyndara til mín daginn eftir, en áður en þau komu fæ ég símtal frá sjúkrahúsinu þar sem þau segjast viðurkenna að þetta séu læknamistök.  Og í framhaldi af því fer allt á fulla ferð og ég er bara allt í einu í öllum fjölmiðlum bæði hérna í Noregi og á Íslandi.”

Margrét var svo boðuð á fund á sjúkra­hús­inu. Þar lagði bæklun­ar­lækn­ir spil­in á borðið og greindi Mar­gréti frá þeirri al­var­legu hand­vömm sem átt hefði sér stað.   Tveir bæklun­ar­sk­urðlækn­ar, með full rétt­indi til þeirr­ar iðju, hefðu þurft að framkvæma aðgerðina í sam­ein­ingu, ekki einn rétt­inda­laus. „Hann sagði við mig að hann sjálf­ur hefði aldrei getað fram­kvæmt þessa aðgerð einn,“ seg­ir Mar­grét.

Og núna fer málið í ákveðið ferli í framhaldi af því að þeir viðurkenna læknamistökin og er Margrét komin með lögfræðing í málið sem hún segir að sé mikill léttir því hann tekur þá við öllu álaginu og mun sjá um öll samskipti og pappíra og að sækja um örorku fyrir Margréti. “Málið er nefnilega að þetta er búið að vera mikið sorgarferli og ég vil bera þetta saman við að missa einhvern nákominn sér því þarna missi ég hendina og ég upplifi fyrst sorg og síðan reiði og svo depurð og þunglyndi því ég get ekki lengur gert allt það sem ég gat áður og núna þarf ég hreinlega að fara að finna mér ný áhugamál sem ég get gert með einni hendi” segir Margrét og stendur upp og sækir útsaumsmynd sem hún hafði einhvern tíma keypt sér en hafði aldrei þolinmæði til að vinna við en ætlar að láta reyna á það núna.

Það er líka fleira sem breytist til dæmis þurfa þau hjónin að selja bílana sína og kaupa sjálfskiptan bíl í staðinn með kúlu á stýrinu svo Margrét geti farið að keyra aftur.  Því þau búa í Øyslebø í Marnardal og þar eru samgöngur nánast engar og nauðsynlegt að geta farið ferða sinna á bíl.  

“Í dag keyrir Jón (eiginmaður Margrétar) mig allt sem ég þarf að fara og er það reyndar mikill stuðningur í þessu ferli að hafa hann með sér”.

Fram til þessa hefur hann þurft að aðstoða Margréti við margar einfaldar daglegar athafnir og er það ómetanlegt að hafa góðan stuðning heima.  Einnig nýtur hún þess að hafa dóttur sína og fjölskyldu í nágrenninu.

En hver er Margret Annie og af hverju ertu hér?

“Úff” segir Margrét “ég er nú búin að vera að leita að sjáfri mér ansi lengi og finnst nú að ég hafi týnst ennþá meira í þessu öllu sem hefur gengið á undanfarið og þarf hreinlega að fara í þá vinnu að finna mig aftur og finna út hvað ég get og hvað getur glatt mig.”

Við vonum að Margrét finni fljótlega sjálfa sig og gleðina og vonandi hjálpar það að vera búin að fá viðurkenningu á þetta voru læknamistök og að þessi læknir muni ekki gera fleiri aðgerðir hérna í Noregi.

Við óskum Margréti og fjölskyldu góðs gengis í framtíðinni.

F.h. Nýja Íslands,
Kristín Jóna Guðjónsdóttir

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.