Sláturgerð er eitthvað sem margir Íslendingar eru aldir upp við, ef ekki við sláturgerðina sjálfa þá að minnsta kosti að borða slátur. Þetta er annað árið í röð sem við skellum okkur í sláturgerð hér í Noregi.

Við búum svo vel að vera tiltölulega nálægt Svíþjóð og ég hef komist að því að það sé langauðveldast að versla inn fyrir slátur í Halal-búðunum sem finnast þar. Ég hef reyndar heyrt að það sé hægt að fá Meny búðirnar til þess að panta fyrir sig en ég reyndi það í fyrra og eftir mánaðarbið fengum við síðufitu í staðinn fyrir mör (nýrnafitu) sem var að sjálfsögðu ekki hægt að nota. Ég hafði séð mör í Halal búð í Svinesund og brunaði því yfir landamærin til þess að versla. Nú orðið byrja ég á að fara og versla mörinn (ég kaupi hann í BR food AB í Svinesund) því að lifur, blóð og allt hveitið er hægt að kaupa hér. Ég hef notað uppskriftirnar sem finnast á lambakjot.is

.

Við fáum gervikeppi senda frá Íslandi. Það eru til amk. tvær tegundir, þessar sem eru eins og belgir og svo eru til lengjur. Lengjurnar eru allt of stórar fyrir slátur en það er hægt að klippa þær niður í 3 stykki og sauma fyrir endann í saumavél. Belgirnir eru af þægilegri stærð en opið er mjög lítið svo það er erfitt að setja í þá. Eftir að hafa prófað margar aðferðir, meðal annars að klippa ofan af, þá enduðum við á að nota sprautupoka úr plasti til að sprauta grautnum ofaní. Athugið að það þarf að setja gervikeppina í vatn áður en þeir eru fylltir. Við notum svo bara heftara til að loka fyrir á eftir.

Svo var að sjálfsögðu slátur í matinn um kvöldið með kartöflum og rófum.

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.