Kolla Kvaran skrifar:

Þjóðbúningar hafa alla tíð heillað mig, hvort heldur sem islenskir af ýmsum toga eða erlendir. Listfengin, litagleðin, sagan og erfðirnar, tala sérstaklega mikið til mín og fyrir mér eru þetta ekki eingöngu augnakonfekt heldur hlutgerfingar þeirrar þjóðarmenningar sem hver og einn á uppruna sinn í.

Peysufötin, upphlutur, faldbúningur og skautbúningurinn, er eitthvað sem svo margir Íslendingar eru stoltir af en þó sérstaklega þegar við flytjum út í hinn stóra heim sem fullur er af ókunnugum og ævintýralegum tungumálum, hlutum og atburðum.

Það er gott að geta smeygt sér inn í samfélag annarra þjóða og samlagast og hreinlega nauðsynlegt ef maður ætlar að þrífast vel, en það er mörgum mikil þörf að gleyma ekki uppruna sínum og kjarnanum, í hversdagslegu lífi sem hellist yfir eftir ákveðinn tíma á erlendri grund.

Og þá er fátt betra en að geta klætt sig upp í fallegan búning frá sínu landi og spjalla á móðurmálinu á mannamótum.

Við Íslendingar í Noregi erum einstaklega heppnir að hafa sérfræðing í íslenskum þjóðbúningum á meðal okkar, sem er ekki eingöngu að sérsauma búninga heldur er hún einnig að kenna búninginn á námskeiðum sem íslenskar konur í Noregi, sækja í auknum mæli.

Sigrún Ingibjörg Arnardóttir, sjúkraliði, er sennilega betur þekkt sem Inga Arnar, bæði hér í Noregi og á Íslandi en það eru komin 5 ár síðan hún flutti hingað út með manni sínum Guðmundi Péturssyni verkfræðingi.

Ég mælti mér mót við hana á mánudagskvöldi á heimili hennar í nágrannabyggðum Kristiansand og þar tók hún á móti mér ásamt Heiðu dóttur sinni sem sat þar við elsdhúsborðið og saumaði í höndunum.

Þær eru hláturmildar, mæðgurnar og yfir kaffi breytist viðtalið okkar í notalegt spjall eins og gengur og gerist er Íslendingar í útlöndum koma saman, ókunnugir landar verða að fjarskyldum ættingjum.

VIÐTAL VIÐ INGU ARNAR

Ég er að reyna að kenna dóttur minni svo hún geti smám saman farið að vinna sjálfstætt og lært þetta af mér.”

Inga ásamt Heiðu dóttur sinni

Ertu bæði að sauma íslenska og norska búninga?

Já, ég er núna á öðru ári að læra að sauma Vest Agder búninginn í Mandal og að kenna hann.Það vantar kennara og við erum 9 sem vorum teknar inn og erum að læra þetta til að geta haldið námskeiðin.Það eru mjög margir sem vilja fara á námskeið og læra að sauma búninginn.

Ég gerði það bara að gamni mínu á sínum tíma að fara á námskeið til að sauma Vest Agder búninginn, aðallega til þess að kynnast öðrum konum, ég þekkti svo fáar á mínum aldri. Og þá fékk ég tilboð um að koma í þjálfun í kvöldskólanum og læra að kenna búningasaum og er að kenna þar á þriðjudögum og fimmtudögum í Aftenskolen í Kristiansand en fer síðan á miðvikudögum upp til Bjelland að kenna á vegum norska heimilsiðnaðar félagsins.

En ég er eiginlega að læra 2 aðferðir við norska búninginn, eina aðferð í kvöldskólanum og síðan aðra hjá heimilisiðnaðarfélaginu. Ég átti svolítð erfitt með að setja mig inn í þetta þar sem ég er ekki fædd inn í þetta því maður hefði haldið að aðferðirnar hjá heimilisiðnaðarfélaginu væru réttari enn í skólanum. En maður getur ekkert verið öruggur um það. Þær reyna að kenna þetta svolítið einfaldara hjá heimilisiðnaðarfélaginu og þá eru bæði pilsin og vestin aðeins öðruvísi.

Aftenskolen er með kennara sem kenna bæði karla og kvennbúninginn en það vantar fleiri til að kenna karlabúninginn, þeir eru því miður frekar pantaðir frá útlöndum þvi það eru víst bara klæðskerar sem mega sauma þá. En það eru margir sem vilja læra þetta og sauma á fjölskylduna, það voru ekki klæðskerar í gamla daga sem saumuðu búningana heldur bara venjulegar duglegar konur.

Hversu löng eru þessu námskeið?

Hvert námskeið er 10 skipti, 4 tímar í senn og ekkert svo rosalega dýrt miðað við námskeiðin sem ég held sjálf. Því Aftenskolen fær styrki en ég þarf að bera kostnaðinn sjálf af þeim námskeiðum sem ég held fyrir íslensku konurnar. Ég hef verið með námskeið í Moi, Osló og hérna í Kristiansand fyrir íslenskar konur sem vilja gera íslenska búninginn. Svo er ég að sauma fyrir fermingarstúlkurnar og íslenskar mæðgur í Bergen sem ég hitti upp í Osló.

Þetta er mjög gaman, ég kynnist svo mörgum skemmtilegum konum og það myndast skemmtileg stemning því þær eru að gera svo fallega og vandaða hluti saman.

Það myndast mikil vinkonutengsl því þetta er svo náið samband á námskeiðunum á milli kvenna, það er mátunin, þetta tekur tíma og miklar spekúkleringar um silfrið og sauminn.

Inga sýnir íslensku fljóðunum handbrögðin en búningarnir eru allir saumaðir í höndunum

Nú er mikið af silfri á búningum beggja þjóða, er mikill munur á þeim íslenska og norska?

Heima er ekki hægt að sjá mun á silfrinu á milli landshluta eins og hér, nema skúfhólka sem ég hef séð frá Vestfjörðum sem voru öðruvísi enn annars staðar. Gull var mjög sjaldan notað fyrr enn um 1935 og þá var notað það sem kallað var sauðagull. Það voru gullpeningar sem notaðir höfðu verið við sölu á sauðum og konur létu smíða fyrir sig skúfhólka úr þeim. En annað gull á búningunum var gullhúðað silfur.

Það er mjög mikill munur á norska og íslenska búningnum. Saumaskapurinn er svipaður en ekki formið. Skyrturnar eru svipaðar og á gamla búningnum heima, nema að þær norsku eru útsaumaðar. Ég hef ekki fundið það heima.

Þeir líkjast svolítið að því leyti að þessi klæðnaður er ættaður frá Norðurlöndunum og efnin komu með skipum þaðan og svo var notað það sem til var. Hér áður var saumuð baldering í borða framan á bolinn en síðan kom kannski ekki meira af þeim silfurþræði til landsins og þá fóru gullsmiðirnir að smíða þetta silfur. En áður fyrr var upphluturinn undirfatnaður, bara korselett undir peysufötunum en síðan fór þetta að breytast og þær fóru að sleppa treyjunni.

Íslensku telpna búningarnir eru sérstaklega fallegir og eru jafn mismunandi og þeir eru margir

Ég er lærður fata og textílkennari frá Danmörku”

Hvernig stóð á því að þú fórst út í þjóðbúninga sauminn?

Það var þannig að ég kenndi í Verkmenntaskólanum á Akureyri og þurfti bara að skipta um starfsvettvang en þá hitti ég eldri konu sem var stödd á Akureyri sem hafði svo mikinn áhuga á búningum. En hún var þar að kenna konum hvernig ætti að klæðast þeim. Ég spurði hana hvort hún gæti tekið mig í nám og þá mundi ég fara til hennar í Reykjavík, af og til.

Ég byrjaði þarna í kringum 1995 og var hjá henni í 1 ár og fór þá að vinna sjálfstætt, því ég var svo heppin að hafa lært allt um þetta gamla handverk í Danmörku. Síðar fór ég í Háskóla Íslands í Þjóðfræði og þar skrifaði ég lokaritgerðina mína um skotthúfur og skúfhólka. Skrifaði sögu kvenna um hvernig þær eignuðust skúfhólkana, hvernig þetta erfðist á milli kvenna. Mynstur og lögun og hvernig skotthúfurnar hafa þróast. Svo tók ég masterinn í Menningarmiðlun og skrifaði áfram um þjóðbúninga og um konur sem voru miklar handverkskonur og höfðu lært í Noregi og Danmörku. Hvernig vettlingar til dæmis þróuðust á milli kynslóða innan sömu fjölskyldu. Lokaverkefnið kom síðan út í bók, Lífsins Blómasystur, Hannyrðakonur af Svaðastaðaætt.

Nú eru komin 5 ár síðan þú fluttir út til Noregs. Hvers vegna Noregur?

Það var nú dóttir mín hún Heiða sem spillti fjölskyldunni og flutti út ári á undan með 4 börn og eiginmann. En það voru bara tímamót í okkar lífi, reksturinn var ekki að ganga nógu vel hjá Guðmundi manninum mínum og hann fór út á undan mér.

Ég er með þjóðbúninga saumastofu heima á Akureyri og velti mikið fyrir mér hvort ég ætti að nenna að flytja og byrja á núlli og læra nýtt tungumál, því ég var orðin svolítið þekkt í þessum þjóðbúninga geira heima. En ég gekk alveg inn hérna og fór bara beint í vinnu sem sjúkraliði því ég hafði dönskuna og gat byrjað strax að tala.

Hver eru svo plönin í Noregi?

Ég fékk nú bara áfall þegar ég áttaði mig á því að maður er orðinn eldgamall 64 ára hérna, ekki eins og heima. Ég ætlaði ekkert að hætta að vinna sem sjúkraliði fyrr enn 67 ára en maður er stoppaður af. Hér er talað um að sjúkraliðar hætti að vinna 65 ára og núna eru þeir hættir að leyfa mér að fara á námskeiðin. En ég er nú ekki að renna út í búningunum og ég held að það sé bara verið að ýta mér út í að hella mér í búningasaum. Ég get verið að vinna til áttræðs í búningunum og hef bara gaman af. Þetta er ekki starf sem mér leiðist.

Þess má geta í lokin að þeir sem hafa áhuga á námskeiðunum hjá Ingu Arnar, geta haft samband við hana hér:
https//:facebook.com/inga.arnar

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.