Ja hérna ef Eyjamenn dreifa sér ekki meira en aðrir þá veit ég ekki hvað. Núna ætla Eyjamenn í Noregi að halda sína eigin míní þjóðhátíð í Ósló með brekkusöng og allt. 

En hverjum datt þetta í hug og af hverju? 

Jú jú það er hún Sirrý Garðars sem er hugmyndasmiðurinn að þessu og við hjá Nýja Íslandi ákváðum að taka hana tali og spyrja út í þennan viðburð sem verður haldinn 2. ágúst á Månefisken, Sagveien 23 a, 0459 Oslo.

En Månefisken er virkilega skemmtilegur staður í Ósló þar sem mikið er um alls konar viðburði.

Sirrý hvernig datt þér þetta eiginlega í hug?

Það er nú bara þannig með flesta Vestmannaeyinga að löngunin til að vera á Þjóðhátíð hvorki eldist af manni né hverfur.

Og þetta byrjaði allt saman árið 1874, þegar Ísland hélt upp á 1000 ára afmæli lýðveldisins með aftaka veðri í Vestmannaeyjaeyjum ( Gerist nú ekki oft) sem olli því að Eyjamenn komust ekki upp á land. Þeir brugðu því á það ráð að halda sína eigin Þjóðhátíð. 

«Snilldarhugmynd.»

Mér fannst því upplagt að við  her í Noregi myndum halda okkar eigin hátíð hér í Ósló 145 árum síðar.

Hvernig hefur fólk tekið í þetta hjá þér?

Ég er ótrúlega ánægð með viðbrögðin og miðasalan er í fullum gangi, ætli það verði ekki bara uppselt? 🤪… Allavega sannfærð um að það verður “góðmennt”.

Og ég hef ekki ennþá hitt Íslending sem ekki hefur heyrt um Þjóðhátíð í Eyjum og hreinlega stórefast um að hann finnist.

En það hafa ekki allir upplifað að fara á Þjóðhátíð, svo nú er tækifæri til að upplifa “mini útgáfu” með fullt af skemmtilegu fólki og frábærum tónlistarmönnum,sem að öðrum ólöstuðum eru bara “lang bestir” og ég hef bara ekki tölu á hvað mörgum þjóðhátíðum þeir hafa spilað á, og í ár er engin undantekning því ég held þeir fari beint til Eyja héðan.

Já við erum að tala um Gunna Óla og Hebba úr Skímó, en þeir ætla að halda uppi stuðinu bæði úti í «brekkusöngnum» og spila síðan á ballinu inni langt fram á nótt. Svo það er óhætt að lofa frábærri stemningu.

Og ekki skemmir staðsetningin fyrir heldur. 

Månefisken er gömul vefverksmiðja sem gerð var upp og þar er að finna að mínu mati flottustu veislusali í Oslo ásamt sumarkaffihúsi.
Månefisken liggur í yndislegu umhverfi á bökkum Akers árinnar sem rennur í gegnum Oslo og er staðsett á mörkum Sagene og Grünerløkka.

Ég hvet alla til að fara inn á viðburðinn sem auglýstur er á Facebook undir “Mini Þjóðhátíð» og lesa bæði dagskrána og matseðilinn. Þar er einnig að finna upplýsingar um  verð og greiðslufyrirkomulag.

Að lokum sagðist Sirrý hlakka til að sjá ykkur öll í Þjóðhátíðardressinu  hress og kát.

Og fyrir þá sem hafa áhuga  á að mæta en búa utan Osló þá er Månefisken  ekki langt frá Osló S en það tekur 13 mín að keyra, 12 mín með trikk ( stoppustöð Biermannsgate trikk 11, 12 og 13 ) og 30 mín að labba.

Svo það er lítið mál að finna hótel í miðbænum nú eða aðeins nær ef fólk óskar.

Við á Nýja Íslandi hlökkum líka til að sjá sem flesta þarna og ég veit að Sirrý tekur vel á móti okkur öllum og stemningin verður gríðarleg og um leið og ég kveð hana Sirrý þá syngur í höfðinu á mér:

Í Brekkunni er sungið dátt

um hetjudáð og höf.

Gullkornin sem Geiri og Ási

færðu oss að gjöf.

Um ástir, víf og villta strengi

um stranga sókn og góða drengi

og hetjudáð á ystu nöf.

Um bjarta von hjá blíðum meyjum

perlurnar hans Árna úr Eyjum

og ofurmenni eins og Binna í Gröf.

Ég raula Bjartar vonir vakna

vökva sálina og sakna

einhvers sem ég veit, að er hér eflaust enn.

Um Dalinn þrumukátur dansa og augun í þér glansa

undir Fjósakletti af ást ég innan brenn.

Þangað til næst,
ykkar Kristín Jóna hjá Nýja Íslandi

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.