Nú er alveg að koma að einum stærsta viðburði Íslendingafélagsins í Suður Noregi en það er hið víðfræga þorrablót okkar.

Mér skilst að þetta sé með stærstu þorrablótunum hérna í Noregi ef ekki næst stærst.

Það hefur alltaf verið brjálað stuð og mikið borðað þó ekki borði allir súrmatinn þá finnst þeim æðislegt að fá hangikjöt, slátur og harðfisk. 

Og núna verður einnig í boði reyktur og grafinn lax.

En flestir smakka nú hákarlinn og fá sér brennivínsstaup með.

Einhvern veginn er það nú þannig að Íslendingur verður aldrei meiri Íslendingur en þegar hann býr erlendis og því er svo dásamlegt að halda í hefðir sem þessar.

Í ár, ætlar hinn frábæri Mio Eyfjord að vera DJ og veislustjóri hjá okkur og lofar hann brjáluðu stuði.  

En það verða fleiri skemmtiatriði á dagskrá eins og dúettinn Igloo, fjöldasöngur og vonandi stígur einhver á svið og segir nokkra brandara.

Það verður einnig happadrætti og mörg fyrirtæki sem gefa vinninga eins og Mirra, Kolla, Color Line, Skyland trampolinpark og nokkrir veitingarstaðir. En enn er verið að safna vinningunum svo ýmislegt annað spennandi getur komið í ljós.

Þetta er bara þriðja þorrablótið mitt hérna í Noregi.  Á því fyrsta var ég bara gestur en í fyrra og núna er ég í stjórn Íslendingafélagsins og þar af leiðandi í undirbúningi og ég get alveg sagt það fyrir satt að það er svooooo gaman að vera í undirbúningsnefndinni og daginn sem blótið er þá hittumst við og sjóðum kartöflur, gerum uppstúf og skerum niður þorramatinn við dúndrandi tónlist og syngjum hástöfum með.  

Svo er það langskemmtilegasta og það er að efla andann og hitta landann!

Við í Íslendingafélaginu í Suður Noregi hlökkum til að sjá sem flesta og lofum frábærri skemmtun.  Ég veit alla vega að ég mun skemmta mér konunglega eins og alltaf.

Kveðja frá suðurlandinu,

Kristín Jóna

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.