Kjerringsveiven er 12 km löng fjallganga sem eingöngu er ætluð konum og er alltaf haldin fyrsta laugardaginn í september. Þessi ganga hefur verið haldin í 20 ár og er gengið frá Rjukan Fjellstue, meðfram Hardangervidda og í mark í Gverpseborg þar sem við tekur lifandi tónlist og gleði. Nú í ár tóku um 1800 konur þátt í göngunni og meðal annars hópur íslenskra kvenna úr Telemark, Vestfold og Rogaland en þær voru 20 samtals sem tóku 3 hyttur við Kvitåvatn. Þetta var ekki í fyrsta sinn sem þær fóru; í fyrra voru þær 6 sem voru í einni hyttu á sama stað. Gangan sjálf, er eins og fyrr segir, 12 km og er hæsti punktur leiðarinnar 1082 metrar yfir sjávarmáli. Konurnar ganga algerlega á eigin hraða, þær meiga eiga von á óvæntum tónlistaratriðum, fótabaði eða annari skemmtun á leiðinni og svo auðvitað matar- og drykkjarpásum.

Margrét Ólöf Magnúsdóttir er ein þeirra kvenna frá Telemark sem tók þátt í annað sinn. Hún segir að gangan sé bæði létt og erfið; það séu nokkrar hæðir sem þurfi að sigra og svo ein brött brekka sem einhverjar kölluðu “Helvetesbakken”. Í henni voru teknar margar pásur bæði til að kasta mæðinni og líka til að dást að dásamlegu útsýni sem við blasti. Það var líka mikil gleði þegar hún var sigruð. En leiðin er líka með sléttum köflum og allt þar á milli. Konurnar gengu á sínum hraða og stoppuðu eins og þörf var á til að borða nesti og hvíla sig. Útsýnið þarna uppi er vægast sagt stórkostlegt en hægt er að sjá niður í Rjúkan og það er magnað útsýni. Á seinni helming leiðarinnar er möguleiki á að á við læk, kæla fæturnar í honum eða fara alveg út í eins og margar norskar konur gerðu.

Séð niður í Rjukan. Ljósmyndari: Bryngerður Ásta Guðmundsdóttir

Gangan er fyrir alla, að því gefnu að kona geti gengið án göngugrindar. Þarna voru konur á öllum aldri, stærðum og gerðum. Það er mikilvægt að ganga á sínum eigin forsendum en ekki pína sig til að vera samferða vönum fjallageitum. Þetta lærði Margrét Ólöf frá göngunni í fyrra, en í ár passaði hún sig á að ganga á sínum hraða en ekki vera að eltast við vinkonurnar sem voru sprækari en hún. Fyrir vikið varð hún ekki jafn þreytt eftir daginn eins og fyrir ári síðan.

Margrét Ólöf segir að það sem hafi staðið uppúr fyrir henni var að vera í göngu með svo mörgum konum sem allar voru jákvæðar og samhentar, vildu fara í þessa krefjandi göntu og greiða fyrir að fá að vera með. Þar með eru þær allar með í verkefninu “Konur hjálpa konum” en peningarnir eru nýttir til að aðstoða konur í Guatemala, í Monte Cristo  til að hafa fasta búsetu og atvinnu til að geta lifað sæmandi lífi. (Hægt er að lesa meira um það hér: https://www.kjerringsveiven.no/kvinnerhjelperkvinner)

“Það var svo skemmtilegt að koma í mark,” segir Margrét Ólöf og heldur áfram: “þar tóku á móti okkur þessir huggulegu menn sem gáfu okkur Kjerringsveiv-næluna  og „klemm“ með hamingjuóskum. Og í Gvepseborg var dúndrandi tónlist, konur sem sungu og dönsuðu og skáluðu fyrir unnu afreki. Þvílík stemming!”.

Frá Gvepseborg þar sem endastöðin er. Gaustatoppen, hæsta fjall Telemark, blasir við í baksýn. Ljósmyndari: Helga Hinriksdóttir

Hægt er að velja um tvær leiðir niður úr Gvepseborg til Rjukan; hægt var að taka krossobanen (kláf) niður hlíðina en þá má líka búast við ansi langri biðröð vegna fjöldans, eða að ganga niður 4 km og fara svo í rútu niður í bæinn en þar tekur við enn meiri gleði, tónlist og markaður. Bærinn bókstaflega iðar af lífi þennan dag.

Eftir dagskrá í bænum tók við stemmning í bústöðunum en þessar 20 konur leigðu 3 bústaði sem allir voru nálægt hvor öðrum. Þær grilluðu saman í einum bústaðinum og svo tók við söngur, spjall og gleði.

“Ég ætla klárlega aftur,” segir Margrét Ólöf og bætir við að þær stöllur séu strax búnar að taka frá 4 bústaði uppi í Gaustablikk, rétt við Graustablikk Høyfjellshotel. Þar sé lítil sundlaug, heitur puttur og eimbað sem hún nýtti sér á sunnudagsmorgninum.

Tónleikar í Gvepseborg. Ljósmyndari: Helga Hinriksdóttir

Vert er að taka fram hvað það er mikið öryggi í kringum ferðina. Víða á leiðinni eru sjálfboðaliðar, karlar og konur, sem eru með allt sem þarf fyrir “fyrstu hjálp”. Allar konur sem taka þátt fá uppgefið númer til að hringja í ef eitthvað kemur upp á.

Hyttuhverfið við Kvitåvatn. Ljósmyndari: Helga Hinriksdóttir

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.