Það eru svo ótrúlega margir Íslendingar í Noregi að gera svo skemmtilega hluti og okkur datt í hug að segja ykkur frá tveimur konum sem búa í Søgne í Vest-Agder og prjóna svo flottar lopapeysur.

 – Lestu nánar grein Kristínar Jónu Guðjónsdóttur á vefmiðlinum Nýja Íslandi 

Málið er að þegar undirrituð bjó á Íslandi og var með stelpuna sína litla, endalaust í nýjum og fallegum lopapeysum sem mamma hennar prjónaði þá almennt sá hún ekki önnur íslensk börn í heimaprjónuðu. 

En þegar undirrituð flutti til Noregs þá kynnist hún svo mikið af flottum handverkskonum sem margar eru svo flinkar að prjóna alls konar en þó ber mest á lopapeysunni okkar góðu. Undirrituð hefur hugsað af hverju varð ég ekki vör við þessar konur heima á Íslandi eða voru þær kannski ekki að prjóna þar.

Til að komast að því ákvað hún að hitta þær Völlu og Olgu sem reka Islandsk ull i Søgne.

 

 

Olga er búin að búa í Noregi í 9 ár og kom hingað út með 3 börn og svo kom eitt seinna.  En nú eru uppkommnu drengirnir báðir flognir úr hreiðrinu og annar býr í Ósló en hinn á Íslandi.

Valla er búin að búa í Noregi í 4 ár og er gift með 2 börn.  Hún segir að það sem hafi dregið þau út hafi verið ævintýraþráin, þau voru bæði í góðri vinnu, hann sem rafvirki og hún sem leiðbeinandi á leikskóla.

En stelpur þið kannski byrjið á að segja mér aðeins frá ykkur sjálfum og hvað það var sem dreif ykkur til Noregs?

Valla á orðið fyrst og segir:

Við vorum komin með pínu leið á hversdagsleikanum og langaði í smá ævintýri.Þess vegna ákváðum við að taka ársleyfi í vinnunni og prófa eitthvað nýtt.Okkur líkar lífið mjög vel hérna og eitt ár er nú orðið að 4 segir hún með brosi á vör.

Skrítið hvað tíminn líður hratt þegar lífið er skemmtilegt.

Olga tekur undir með Völlu og segir það einnig hafa verið ævintýraþráin sem hafi dregið þau hingað út og þau hafi einnig byrjað á að fá árs leyfi í sínum vinnum heima á Íslandi til að prófa.  Síðan hefur tíminn flogið.

Olga segir einnig:

Það sem ýtti okkur kannski til að fara út þegar við fórum var að það urðu breytingar í vinnunni hjá eiginmanninum sem honum hugnuðust ekki og því notuðum við tækifærið.  Vinir okkar voru þegar flutt hingað sem auðveldaði okkur flutningana og það að eiginmaðurinn fékk vinnu strax.  Við höfum þrifist vel hérna eins og sést á því að árin eru orðin 9.

En hvenær byrjuðu þið að prjóna? 

Olga:

Ég er alin upp við að mamma prjónaði alltaf lopapeysur og seldi i nokkrar verslanir á Húsavík og á nokkra ferðamannamarkaði bæði í Mývatnsveit og á Fosshóli, það má eiginlega segja að ég sé alin upp við lopann og því var það að þegar ég fór að prjóna varð hann fyrir valinu þrátt fyrir að geta næstum ekki komið við hann.

Valla segir svipaða sögu, því þegar hún var ung var mamma hennar mjög dugleg að prjóna og aðstoðaði Völlu við fyrsta trefilinn og síðan aðra einfalda hluti.

Ég var ekki mjög þolinmóð svo ég átti það til að prjóna eitthvað sem var allt of lítið eða bara handa tilvonandi frændum. Treflar á barbí voru t.d mjög vinsælir.

Svo heldur Valla áfram.

Þegar ég var um 19 ára þá veikist ég og hafði nú ekki mikla þolinmæði til að hanga heima og hafa ekkert að gera svo þá fitjaði ég upp mína fyrstu peysu sem heppnaðist bara nokkuð vel, ég held ég eigi hana meira að segja ennþá.Þessi peysa var meðal annars notuð á Þjóðhátíð og seinna prjónaði mamma húfu á mig í stíl við peysuna.

Ég prjónaði svo nokkrar peysur á sjálfa mig því ég treysti mér ekki til að prjóna á aðra.Nokkrum árum seinna var systir mín beðin að prjóna nokkrar peysur fyrir hestamenn og vantaði aðstoð sem ég veitti henni og síðan þá hef ég alltaf verið með eitthvað á prjónunum.

Eruð þið eingöngu að prjóna venjulegar íslenskar lopapeysur eða eruði að prófa eitthvað nýtt?

Valla segir:

Ég hef rosalega gaman af því að prófa eitthvað nýtt.  Hér í Noregi koma allskonar fyrirspurnir sem ég reyni alltaf að redda  hvort sem það er úr íslenskri ull eða eitthvað annað. Þó svo að ég er mest að prjóna úr íslenski ull þá er virkilega gaman að geta gert nánast allt sem ég er spurð um  þetta er jú allt handavinna sem ég hef gaman af.

En hvað er það við íslenska lopann sem gerir hann svo sjarmerandi og öðruvísi en annan lopa?

Valla:

Ég tel íslenska lopan vinsælan og spennandi þar sem hann er ekki á hverju strái hér í Noregi, íslensk munstur eru oftast mjög falleg og grófleikin kemur vel út á öllum.  Mér hefur verið sagt að íslenski lopinn sé minna unninn og þar af leiðandi heldur hann vatni betur og svo fékk ég líka að heyra að þeir sem hafa gaman af að sitja úti á kvöldin verða síður fyrir mýflugnabitum  (en ég sel það ekki dýrara en ég keypti það).

Hvernig gengur að kaupa lopa hér í Noregi?

Olga segist kaupa allan sinn lopa á Íslandi þegar hún fer þangað í heimsóknir eða biður fólk að kaupa fyrir sig sem er á leið í heimsókn.  „Stundum panta ég hann beint frá Álafoss.  Það er víst hægt að kaupa hann hérna úti en þá er hann svo mikið dýrari.“

Já það er hægt að kaupa lopann hérna segir Valla en ég kaupi hann ekki þar sem hann er mun dýrari en á Íslandi og úrvalið ekki sérlega gott.  „Ég geri sama og Olga og kaupi þegar ég er á Íslandi eða þá að systir mín kaupir fyrir mig og sendir mér hingað út og laumar þá súkkulaði og lakkrís með.  Og nú brosa þær báðar því það er nú alltaf gamal að fá pakka og hvað þá eitthvað óvænt með.“

En hvar eruði að selja peysurnar ykkar og hvernig hefur það gengið?

Olga:

Fyrst þegar við byrjuðum á þessu vorum við nokkrar konur saman með facebooksíðu sem gekk eiginlega mjög vel og seldum við þó nokkuð magn þar en síðan duttu hinar konurnar út úr hópnum og ég og Valla fórum í samstarf og erum við saman með nýja facebooksíðu.

Valla:

Við Olga erum með facebook síðunaIslandsk ull-søgne og þar er hægt að panta í gegnum messenger.

En við höfum einnig lagt örlögin í hendurnar á Kristínu ljósmyndara hjá mirra.no en hún hefur verið okkur innan handar að taka myndir af peysunum til að setja á síðuna okkar.  En Kristín var einnig að opna litla og krúttlega búð í Mandal sem heitir Mirra kunstbutikk og þar selur hún peysurnar okkar ásamt glæsilegum myndum eftir hana sjálfa og svo fleiri vörur handgerðar af íslenskum konum í Noregi.

Kristín hefur einnig nýlega sett á laggirnar vefverslun www.mirra.no/mirrashop/ þar sem flestallar vörur úr búðinni hennar eru til sölu og þar á meðal peysurnar okkar.

En mest af minni sölu hefur farið í gegnum vefinn eða bara „word of mouth“ en það hefur haldið mér upptekinni í vetur með ótrúlega skemmtilegum fyrirspurnum og verkefnum.

En stelpur, framtíðin?  Er hún í Noregi eða á Íslandi?  Eða kannski einhvers annars staðar?

Olga:

Framtíðin er óskrifað blað en hvort hún er i Noregi eða annarstaðar er mest líklegt i okkar tilfelli en ég sé okkur ekki flytja til Íslands i bráð en hver veit hvað framtíðin ber i skauti sér. Ég hef alltaf sagt að ég verð í Noregi á meðan ég er hér, en ef ég fer þá fer ég en hvert, það kemur í ljós þegar að því kemur.

Valla:

Framtíðin er óráðin ég tek bara einn dag í einu. Ég býst samt við að við tefjumst hér eitthvað áfram en eins og frægur maður sagði afhverju að stoppa hér?

Og ein spurning í lokin eru prjónakonur rólegri en aðrar konur? 

Það sagði mér nefnilega einn góður leikstjóri að bestu leikararnir eru konur með prjóna þar sem þær hafa eitthvað fyrir stafni meðan þær bíða eftir að farið sé í að æfa þeirra hlutverk.

Olga:

Já klárlega þetta veitir svo mikla hugarró, og oft kemur sköpunnargleðin líka þarna í ljós fyrir þá sem hafa hana en þar er ég steingeld….

Valla:

Ha ha ha það er ég svo sem ekki viss um, oft upplifi ég mig pínu keppnis . Ég er þannig að þegar ég fæ verkefni þá vil ég klára það sem fyrst og ég get ekki sest niður nema hafa eitthvað í höndunum, kannski eru prjónarnir pínu stress boltar í mínum höndun. En vanalega er ég sultu slök í vinnunni og þegar kemur að krefjandi verkefnum.

Og með þessu orðum kveð ég þær stöllur Olgu og Völlu því sólin skín og þær vilja setjast út með prjónanna og njóta sólarinnar.

Þið sem viljið kíkja á peysurnar þeirra geta farið inná

www.mirra.no/mirrashop/ eða

www.facebook.com/islandskull/

 

Tengdar fréttir:

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.