Tónlistar- og lagahöfundurinn Jónína Aradóttir heldur sína fyrstu tónleika í Noregi nú í júní.

Jónína er kannski ekki heimsfræg á Íslandi en hún á sína aðdáendur og er sá hópur óðum að stækka. Hún er fædd og uppalin í Hofi í Öræfasveit og hefur undanfarin ár unnið í ferðamálageiranum á Íslandi til hliðar við tónlistina. Hún hefur það mottó í lífinu að hafa mikinn unað af öllu því sem hún gerir og framkvæmir hún iðulega það sem henni dettur í hug.

Eins og margir Íslendingar, byrjaði Jónína að spila í partýum eins og gengur og gerist. En svo tók hún þátt í trúbadorakeppni Rásar 2 árið 2003 og fór með sigur af hólmi og eftir það fór allt á fullt í höfðinu á henni. Hún skellti sér í lýðháskóla til Danmerkur þremur árum eftir keppnina, sem heitir Den Rythmiske Hojskole og mælir hún heilshugar með svoleiðis skólum fyrir krakka. Síðar fór hún í tónlistaskóla til Bandaríkjanna og þá fór hún meira út í það að semja lög.

Jónína er alæta á tónlist og það eru alveg ótrúlega margir sem hún lítur upp til, virðir og finnst flottir en ein af hennar uppáhalds er Tina Dico sem er danskur lagahöfundur. Einnig eru Bonnie Raitt, Sara McLachlan og Xavier Maidoo (Sohne Mannheims) í uppáhaldi. Sjálf syngur Jónína mest og spilar á gítar en hún hefur líka lært á harmonikku, flautu og píanó en það er eitthvað sem hún segist meira glamra á. Hún segist ekki hlusta oft á sína eigin tónlist þó það komi fyrir. Hún vill stöðugt vera að læra og forðast að vera föst í einhverju fari og því prófar hún stundum að breyta sínum eigin lögum bara til að gá hvort það sé eitthvað annað sem virki.

Eins og áður hefur komið fram, er Jónína að fara að spila hér í Noregi en hún verður á tónleikaferðalagi um norðurlöndin núna í sumar. Hún er nýbúin að spila í Færeyjum sem gekk alveg frábærlega að eigin sögn. Það var afskaplega vel tekið á móti henni og þar sem eyjarnar eru svo litlar þá vissu nánast allir sem hún hitti um hana og tónleikana hennar. Hún datt í lukkupott þegar hún fékk að ferðast um eyjarnar ásamt innfæddum þar sem hún heyrði sögur og upplýsingar um staðina og fékk þannig menningu, söng og dans frá eyjamönnum beint í æð.

Þetta verður í fyrsta sinn sem Jónína spilar í Noregi. Hún kemur hingað ein á ferð og keyrir um í júní en því miður bara suðurhlutann að þessu sinni. Hún væri mjög til í að fara norðar en Bergen en það verður vonandi næst. Eða jafnvel í ágúst eftir Danmerkurferðina, hver veit.

Hér eru staðir og dagsetningarnar á tónleikunum (tekið af heimasíðunni):

June 3-6th – Stavanger Norway
June 9th – Haugesund, Private concert
June 14th – Café René , Haugesund, Norway 21:00
June 16th – Mobryggja Pub, Modalen, Norway 22:00
June 19th – Bø Telemark, Norway Private concert
June 29th – Klosterenga Cafe, Oslo, Norway 20:00
June 30th – Oslo, Private concert

Meira um Jónínu má finna á www.joninamusic.com og einnig inná facebook https://www.facebook.com/joninamusic/

Að lokum vill Jónína hvetja fólk til að mæta á tónleikana og líka hafa samband við hana ef það vill hitta hana á ferðalaginu. Eitt af því skemmtilegasta sem hún veit er að halda litla persónulega einkatónleika fyrir fólk. Svo það er um að gera að senda henni línu.

– Lestu nánar grein Helgu Hinriksdóttur á vefmiðlinum Nýja Íslandi https://wp.me/p9pE0A-Tq

Tengt efni

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.