Atli Steinn Guðmundsson, þýðandi Lukkuriddarans, bókar Jan-Erik Fjell, við afrakstur vetrarins.
„Öll él birtir þó upp um síðir og blóðugu og svitastorknu handriti var skilað í lok janúar og nú er ritið komið út á Íslandi, glæpasagnaþjóðinni miklu vonandi ekki til eintómra leiðinda.“

Aðsent bréf frá Atla Steini Guðmundssyni.

 

Í maí í fyrra lagði ég í einhverju kæruleysi út pistil hér um að ég væri loksins kominn með bókina Lykkejegeren eftir Jan-Erik Fjell af bókasafninu eftir að hafa byrjað í 463. sæti á biðlista eftir henni. Lét fylgja sögunni að það væri þarft verk íslenskra forleggjara að ná samningum við þennan skelegga glæpasagnahöfund frá Fredrikstad og fara að veita honum ofan í íslenska glæpasagnaþjóð. Tæpum þremur mánuðum síðar ber svo við að íslenskt bókaforlag er búið að klófesta Fjell og mér er boðið að þýða. Þvert nei var auðvitað langfyrsta svarið sem kom upp í hugann en einhvern veginn náði það aldrei út fyrir varir mér þrátt fyrir að hver fruma líkamans öskraði nei. Svo það varð úr að auka-aukavinnan mín, ofan á aukavinnuna mína, hálfan nýliðinn vetur var að dunda mér við að þýða Lykkejegeren á flestum tímum sólarhrings með Neskaffi í bolla og sívaxandi kvíðahnút í maga sem snerist aðallega um hvern fjandann ég væri að hugsa, ég hefði ekki fleiri stundir í sólarhringnum en aðrir.

Öll él birtir þó upp um síðir og blóðugu og svitastorknu handriti var skilað í lok janúar og nú er ritið komið út á Íslandi, glæpasagnaþjóðinni miklu vonandi ekki til eintómra leiðinda. Fjell er einn af mínum uppáhaldshöfundum norskum og söguhetja hans, rannsóknarlögreglumaðurinn meinhæðni Anton Brekke, er – eins og allar góðar hetjur í bókmenntum – andhetja. Hann glímir við ólæknandi spilafíkn. Önnur þekkt lögga í norskum bókum er fyllibytta svo opinberir starfsmenn hafa sinn djöful að draga hér sem annars staðar.

Áður hef ég glímt við þýðingar á léttmeti á borð við barnaefni til talsetningar í sjónvarpi (sem Jóhanna Vigdís Arnardóttir leikkona fékk að kenna illilega á að talsetja í byrjun aldarinnar og kann mér líklega litlar þakkir fyrir) auk þess að þýða fjölda ferilskráa vina og kunningja af íslensku á norsku og starfsmannahandbókina úr ensku fyrir McDonald‘s á Íslandi fyrir 25 árum svo ég skarta nú engri meistaragráðu í fræðunum og oft var þessi 548 blaðsíðna bók Fjell að bera mig ofurliði. Var þá nokkur huggun í því að hugsa til manna sem án efa höfðu það mun djöfullegra á sínum tíma, svo sem Marteinn Lúther þegar hann þýddi Gamla testamentið úr hebresku og hvað má þá segja um Odd Gottskálksson sem sat í fjósi á Íslandi árið 1540 og þýddi Nýja testamentið án þess að hafa svo mikið sem Google til að vinna rannsóknarvinnu? Bara beljur á bás.

Auðvitað er það von mín að þessi fálmkennda tilraunastarfsemi verði einhverjum til gagns og jafnvel gamans, Fjell er mjög skemmtilegur höfundur og bækur hans stórgóð lesning. Ég er ekki að segja að ég ætli að leggjast í að vinna svona lagað aftur, þegar vinnudagurinn nær 19 klukkustundum er ágætt að taka handbremsubeygju.

Ekki varð hjá því komist að leita til nokkurra aðila vegna tæknilegra atriða og eftirtöldum kann ég hinar bestu þakkir:

Ragnheiður Bragadóttir, prófessor í refsirétti við Háskóla Íslands, taldi það ekki eftir sér að veita mér staðgott yfirlit um ásetningsstig í manndrápsmálum í íslenskum og skandinavískum rétti og miðlaði fróðleik sínum af smitandi áhuga eins og góðra prófessora er aðal.

Jon Ingi Thorvaldsson og Ottó Marwin Gunnarsson hjá Pókersambandi Íslands veittu ómetanlega aðstoð við þýðingu ýmissa hugtaka í pókerspili sem ég hef lítið tileinkað mér um ævina…sem betur fer kannski. Jón Ingi las yfir pókerkaflann sem gerist í Las Vegas og lagði þar fram gagnlegar ábendingar og athugasemdir af spaklegu viti sínu. Joachim hjá Norsk Pokerforbund var óþreytandi við að svara jafnvel allra heimskulegustu spurningum mínum og styrkti mig mjög í því ætlunarverki mínu að halda mig áfram frá póker. Sé eitthvað undarlegt eða annarlega orðað í pókersenum bókarinnar skrifast sú handvömm að sjálfsögðu á mig einan.

Olav Kapperud við Deichmanske Biblioteket í Majorstuen hér í Ósló sveigði allar reglur, undantekningar frá reglum og sjálft tölvukerfi safnsins til að gera mér kleift að hafa bókina að láni í sex mánuði samfleytt sem er töluvert skref frá því að vera númer 463 á biðlista. Eins hvatti hann mig áfram við verkið.

Þá má ekki gleyma Facebook-hópnum „Þýðendur að missa vitið“ sem sendi frá sér dularfulla hlýja strauma meðan á þjáningu minni stóð en þar á bæ gráta þýðendur á öxlum þegar bókstaflega ekkert virðist þýða lengur.

Agnar Már Heiðarsson (a.k.a. Aggi flinki og fleira) hlýtur bestu þakkir fyrir að búa mér vetur í helvíti. Ekki láta þig dreyma um að ég geri þetta aftur Aggi.

Heiða Björk Þórbergsdóttir fylgdi mér gegnum þykkt og þunnt við lokafrágang textans og Aðalsteinn Svanur Sigfússon var svo hraðvirkur í umbroti sínu að það var sem hjá Gunnari á Hlíðarenda, að þrjú þóttu á lofti að sjá.

Að lokum á eiginkona mín, Rósa Lind Björnsdóttir, heiður og þakkir skilið fyrir stuðning á tímum þegar spennitreyjan og litla bólstraða herbergið virtust eina vinin á ísköldum eyðisandi geðsmunanna.

Jan-Erik Fjell. Håper du godtar oversettelsen, var litt av en vinter å takle dette prosjektet sammen med tre andre jobber men jeg overlevde…så vidt. Forventer nådeløs men målrettet kritikk når du har lest ferdig 😉

Hin raunverulegu skilaboð þessa pistils: Passið hvað þið setjið á Facebook – þið gætuð þurft að þýða það!

 

Atli Steinn Guðmundssson

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.