Hæstiréttur staðfesti í dag þá túlkun umboðsmanns skuldara að óheimilt sé að krefjast dráttarvaxta á meðan á frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, stendur yfir í úrræði greiðsluaðlögunar.

Málavextir voru þessir, segir í dómnum

K krafðist þess að viðurkennt yrði að A hf. hafi verið óheimilt að krefjast dráttarvaxta á tvö fasteignaveðslán vegna vanskila á því tímabili sem K hafði notið frestunar greiðslna samkvæmt 1. mgr. 11. gr. laga nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga. Í dómi Hæstaréttar kom fram að samkvæmt a. lið 1. mgr. 11. gr. laga nr. 101/2010 væri lánardrottnum óheimilt að krefjast eða taka við greiðslu á kröfum sínum meðan á frestun greiðslna stæði. Þá skyldi samkvæmt 7. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu ekki reikna dráttarvexti á kröfur þann tíma sem greiðsludráttur væri ef skuldari héldi af lögmætum ástæðum eftir greiðslu eða hluta hennar og talið að svo hafi háttað til um hagi K það tímabil sem um ræddi. Þá kom fram að þar sem krafa um dráttarvexti yrði aðeins höfð uppi á grundvelli lögbundinni heimilda væri löggjafanum að sama skapi fært að setja slíkum heimildum þær skorður sem kæmi fram í fyrrnefndri 7. gr. og að sú tilhögun færi ekki í bága við 72. gr. stjórnarskrárinnar. Var krafa K því tekin til greina.

 

Ljóst er að ákveðnir kröfuhafar töldu sig hafa heimild til að krefjast dráttarvaxta vegna þessa tímabils þegar greiðsluaðlögunarmáli lauk án samnings um greiðsluaðlögun.

Embætti umboðsmanns skuldara fagnar þessari niðurstöðu og hvetur einstaklinga sem kunna að hafa verið krafnir um greiðslu dráttarvaxta vegna þess tímabils sem greiðsluskjól stóð yfir, að hafa samband við hlutaðeigandi kröfuhafa.

Hér má lesa dóminn í heild.

Heimasíða umboðsmanns skuldara greinir frá.

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.