„Ég segi bara alveg eins og er að ég lifi til að borða en ekki borða til að lifa.“

Aðsent bréf frá Helgu Hinriksdóttur.

Mér finnst líka gaman að bæði að elda og baka. Stundum er maður samt algjörlega andlaus og hugmyndasnauður um hvað maður vill hafa í kvöldmatinn og svo öðrum stundum fær maður alveg svakalega löngun í eitthvað ákveðið.

Það gerðist nefnilega í gærkvöldi þegar það helltist yfir mig löngun í soðin hrogn. Ég hef ekki hugmynd um hvað olli þessari löngun upp úr þurru og ég er nú svo mikill landkrabbi að ég hef ekki hugmynd um hvenær “hrognatímabilið” er. Svo ég varð að fara í fiskibúðina niðri í bæ í Sandefjord. Í versta falli kæmi ég tómhent út. En viti menn, þarna lágu ný hrogn, appelsínugulbleik og falleg. Ég fékk strax vatn í munninn!

Keypti örlítið af hrognum og smá þorsk líka (þó að það sé til þorskur í frystinum). Ég keypti bara lítið af hrogum því ég var ekki einu sinni viss hverjir af heimilisfólkinu myndu borða þetta, svo langt er síðan ég sauð hrogn síðast. Ég átti til rúgbrauðsbita í frystinum sem var strax tekinn út. Kartöflur og smjör var líka til.

Afrakstur dagsins, soðin þorskur og hrogn ásamt rúgbrauði með smjeri og kartöflum

Ég gat varla beðið. Við erum “vön” að borða um kl. 19. Þegar ég segi “vön” innan gæsalappa þá er það samt engin formleg hefð. Svona höfum við bara alltaf haft þetta. Eða ég gæti eiginlega sagt svona milli kl. 19 og 21, það væri nærri lagi. En ekki í kvöld. Þá setti ég kartöflurnar yfir rúmlega 5.

Kvöldmaturinn stóðst allar væntingar. Þorskurinn var æði, hrognin voru algjört sælgæti, rúgbrauðið var sjúklegt og kartöflurnar og smjörið settu punktinn yfir i-ið. Nammi namm! Hvaða furðulega löngun skyldi hellast yfir mig næst?

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.