Laugardag fyrir jól kom ég á heimili Bjargar Þórhallsdóttur í Ósló. Heimilið, sem er bjart og fallegt, hafði yfir sér mikinn sjarma litadýrðar og listræns stíls enda húsráðandi mikil listakona. Hún hefur gefið út bækur, heldur fyrirlestra og selur sín eigin listaverk sem endurspegla jákvæðni, áræðni og von.

Listakonan Björg að störfum á vinnustofu sinni

Þennan fallega og sólbjarta laugardag var Björg með einkasöfnun fyrir vinkonu sína sem býr á Kúbu. Allt úði og grúði af ónotuðum varningi til sölu allt frá fatnaði frá þekktum framleiðendum, til sænguverasetta frá Georg Jensen og KitchenAid heimilistækja. Vinir Bjargar höfðu tekið sig saman og lagt til varning til að gera henni kleift að safna fyrir vinkonu sína.

Heimili Bjargar var þar af leiðandi mannmargt þennan daginn, vinir og vandamenn komu og fóru og gerðu góð kaup. Björg bauð upp á jólaglögg fyrir gestkomandi og smákökur og konfekt lágu í skálum fyrir þá sem vildu.

Tvær litlar stúlkur sáu um að teikna þá sem keyptu varning og studdu við gott málefni. Ég tek Björgu tali og þrátt fyrir að þetta viðtal eigi að fjalla um sendiherrastöðu Bjargar hjá 1,6 milljóna klúbbnum, var ekki annað hægt en að svala forvitninni og spyrja aðeins nánar út í hvers vegna hún stæði fyrir þessa söfnun.

Það kom á daginn að það tengdist einmitt ástæðu þess að Björg gegnir þessari stöðu. Björg lætur sig nefnilega annað fólk varða.

Hver er sinnar gæfusmiður, allir verða fyrir áföllum í lífinu og sumir meira en aðrir en við getum samt valið hvernig og hvort við vinnum úr áföllunum og sleppum takinu af því sem gerst hefur.

Ef eitthvað hefur mótað mann í æsku, ofbeldi eða eitthvað slíkt, getum við fengið hjálp þegar við erum eldri. Það er eiginlega á okkar ábyrgð að leita aðstoðar þegar við verðum fullorðin.

En hverni komst Björg í kynni við þessa vinkonu sína sem býr á Kúbu?

Ég fann hana inni á salerni í Sandvika Storsenter. Hún hafði flúið manninn sinn, sem er norskur, en hann var búinn að vera að selja hana öðrum mönnum.

Ég fékk bara þá tilfinningu að ég þyrfti að hjálpa henni og þar með kom hún heim með mér og bjó hjá mér í fjögur ár. En þá rann dvalarleyfið út og hún þurfti að fara aftur til Kúbu.

Þú ert að halda þessa söfnun fyrir hana, afhverju?

Eftir að hún kom til Kúbu var hún stimpluð sem föðurlandssvikari þar sem hún hafði yfirgefið landið. Bræður hennar eru það einnig eftir að hafa mótmælt Castro. Með þann stimpil færðu ekki vinnu, og án vinnu er ekki hægt að tryggja sér húsaskjól.

Söfnuninn er fyrir hana og við þurfum bara 30 þúsund norskar krónur og þá getur hún keypt sér þak yfir höfuðið. Hlutirnir eru aðeins að breytast þarna úti, en það tekur tíma.

Í þessu töluðu orðum höfðu nú safnast 20 þúsund krónur þurfti Björg að hlaupa. Litlu stúlkurnar teiknuðu myndir á blað sem sýndi einnig upphæðina sem safnast hafði.

En er hún kom aftur spurði ég hana út í sendiherrastöðuna fyrir 1,6 milljóna kvenna klúbbinn, hverskonar klúbbur er það?

1,6 milljónaklúbburinn var stofnaður í Stokkhólmi árið 1998 af Alexandra Charles sem átti fínan og eftirsóttan einkaklúbb sem mjög erfitt var að ganga í. Þar var kóngafólkið og allt þekktasta fólkið tíðir gestir.

Hún stofnaði þennan 1,6 milljónaklúbb og fékk allar flottustu konurnar til að vera sendiherrar og safnaði fé til að styðja við heilsufarsrannsóknir á konum þar sem það sýndi sig að konur eru með allt aðrar þarfir hvað varðar heilsu og heilbrigði en karlar. Líkami kvenna bregst öðruvísi við, til dæmis eru hjartaáföll annarskonar hjá körlum en konum.

Það eru alltof margar konur sem deyja vegna þess að flestar rannsóknir eru gerðar á körlum.

Síðar var klúbburinn stofnaður i Noregi fyrir um 15 árum síðan og nú nýlega var þetta verkefni að byrja á Íslandi en fyrsti fundurinn þar var haldinn núna fyrir stuttu.

Nafnið kúbbsins er dregið af þeim fjölda kvenna sem var yfir 45 ára þegar hann var stofnaður.

En hvert er hlutverk Bjargar sem sendiherra?

Mitt hlutverk er að vera með fyrirlestra á vegum samtakanna og þeir sem sækja fyrirlesturinn greiða hóflegt gjald fyrir að koma og þannig söfnum við saman fyrir rannsóknum um heilsu kvenna.

Björg með fyrirlestur sinn á vegum 1,6 milljóna klúbbsins á Bristol Hótelinu í Ósló þann 27. nóvember síðastliðinn

Björg fer með með fyrirlestra sína víða og nú nýverið var hún hjá Rauða krossinum í Noregi. Hún er líka búin að vera að hjálpa konum í ofbeldissamböndum og konum sem eru giftar alkóhólistum

Hér heldur Björg einn af fyrirlestrum sínum

Björg flutti til Noregs þegar hún var 14 mánaða frá Ísafirði þaðan sem fjölskyldan hennar er. Systir hennar Dóra, var 2 ára og ætluðu foreldrar hennar upprunalega að vera í Noregi í tvö ár.

Hún talar mjög góða íslensku, enda töluðu þau íslensku heima alla tíð. En svo fékk pabbi hennar góða stöðu hér í Noregi og þá lengdist dvölin um tvö ár og svo um tvö ár til viðbótar og nú eru þau búin að vera hér í 43 ár. Björg bjó þó einnig í Malasíu í nokkur ár.

Okkur líður mjög vel hérna en ég er mjög ánægð að vera íslensk. Það er þessi vinnumórall sem ég er búin að fá frá pabba og mömmu. Það er þessi bjartsýni og „þetta reddast“ sem ég hef fengið frá pabba og mömmu.

Þó að margir Norðmenn fari heim hálffjögur, þá geri ég það ekki. Ég er búin að ná svona langt og gera svona mikið af því að ég er með þetta íslenska element í mér.

En Björg segist aðspurð ekki finnast Íslendingarnir of beinskeyttir fyrir norska menningu þrátt fyrir að þeir hafi annað viðhorf en Norðmenn. Hún segist þvert á móti elska þennan menningar og þjóðfélagsmun.

Sjálf upplifir hún fjölbreytileikann á hverjum degi því hún á norskann kærasta sem er ættaður frá norður Noregi. En fólk þaðan er á margan hátt líkt okkur íslendingum í hugsun og fasi.

 

 

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.