Flugvirkjafélag Íslands og Samtök atvinnulífsins hafa komist að samkomulagi í kjaradeilu Flugvirkjafélagsins við Icelandair. 

Samningar voru undirritaðir í húsnæði ríkissáttasemjara um fjögurleytið í nótt og hefur verkfalli því verið frestað í fjórar vikur. 

Samningurinn verður nú borinn undir félagsmenn í Flugvirkjafélaginu til samþykktar eða synjunar. Nánar verður greint frá samkomulaginu eftir því sem tíðindi af því berast.

Seinkun verður á flugi Icelandair í dag. Flogið var á alla áfangastaði nema tvo í morgun. Flug ætti að verða komið í samt lag á morgun, segir Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair.
„Það sem gerist í raun strax í nótt þegar búið er að skrifa undir er að þá fara flugvirkjar af fullum krafti til Keflavíkur og inn á flugvöll og fara að gera það sem þarf fyrir þær vélar sem þar hafa staðið og beðið. Í sumum tilvikum þarf sáralítið. Það þarf kannski að bara að ganga frá pappírum og tékka af einhverja smáhluti sem tekur nokkrar mínútur. Þannig að verkefni næturinnar hafa verið að koma vélunum í stand. Þannig að morgunflugið lítur alveg þokkalega út. Við erum að fljúga nánast öll flug á nánast alla áfangastaði nema held ég tvo, sem nást ekki. Það hafa verið gerðar ráðstafanir, eins og fram hefur komið undanfarna daga, þar sem við höfum verið að reyna að létta af vélunum þeim farþegum sem eru að fara yfir hafið, þannig að það lítur í rauninni ágætlega út með daginn. Það verða einhverjar seinkanir í morgunfluginu sem kannski speglast yfir á síðdegið. En við gerum ráð fyrir að fljúga nánast fulla áætlun í dag og að við komum farþegum meira og minna á sinn stað. Þannig að eftir daginn í dag þá ætti þetta að vera allt saman komið í eðlilegt horf, og svona kannski erfitt að giska en kannski alveg 80-90 prósent í dag,“ segir Guðjón. 

Fréttastofa RÚV greinir frá

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.